Í ólgusjó heimsfaraldurs

Árið 2020 var um margt viðburðaríkt en það er varla hægt að fjalla um árið á velferðarsviði án þess að fara rakleiðis í að tala um Covid-19. Veiran hafði djúpstæð áhrif á velferðarsvið, sem enn sér ekki fyrir endann á.

Strax í upphafi árs kom neyðarstjórn velferðarsviðs saman og undirbjó jarðveginn. Við vorum því reiðubúin þegar fyrsta smitið greindist í landinu. Fátt gat þó búið okkur undir þá miklu varnarbaráttu sem framundan var. Á meðan samfélagið var í hægagangi á löngum tímabilum jókst álagið á starfsfólk í velferðarþjónustu, sem þurfti að hlaupa hraðar, taka á sig aukna ábyrgð og veita fjölbreyttari þjónustu en áður.

Sótt fram við krefjandi kringumstæður

Það var ótrúlegt að verða vitni að því endurtekið í gegnum árið hvernig útsjónarsemi starfsfólks kom upp á yfirborðið þegar við stóðum frammi fyrir flóknum úrlausnarefnum. Á öllu sviðinu var fólk að skapa nýjar leiðir til að ná til okkar fjölbreytta hóps skjólstæðinga og veita þeim þjónustu. Að þessu leyti má því segja að Covid-19 hafi haft jákvæðar afleiðingar í för með sér. Faraldurinn þrýsti okkur til að leita nýrra lausna, nýta okkur tæknina og koma nýjungum hratt og örugglega í gagnið. Innleiðing á skjáheimsóknum í heimaþjónustu eru gott dæmi um slíka nýjung sem er komin til að vera.

Í upphafi faraldursins voru smitvarnir allsráðandi og baráttuandi einkenndi starfsemi sviðsins. Starfsfólk velferðarsviðs fann til ábyrgðar og hverjum degi fylgdi nýr lærdómur. Á sama tíma og við lærðum sjálf þurftum við að kenna öðrum. Velferðarsvið var þannig leiðandi í viðbrögðum við faraldrinum en neyðaráætlanir og verklag þess nýttust Almannavörnum og öðrum sveitarfélögum með beinum hætti.

Þegar leið á faraldurinn fóru afleiðingar hans að gera vart við sig á sviðinu með nýjum áskorunum. Fjárhagsaðstoð jókst, barnaverndartilkynningum fjölgaði auk tilkynninga um heimilisofbeldi. Álagið jókst verulega á ráðgjafa þjónustumiðstöðva og starfsfólk barnaverndar.

Mannauður og öflug þróun verkefna

Þrátt fyrir Covid tókst samt að undirbúa jarðveginn fyrir nýja velferðarstefnu og stjórnendur, undir forystu mannauðsdeildar, lögðu grunn að Betri vinnutíma fyrir fólk í vaktavinnu. Það var krefjandi verkefni sem færir okkur vonandi ánægðara starfsfólk.

Keðjan tók til starfa snemma á árinu, en hlutverk hennar er að veita stuðningsþjónustu fyrir börn, ungmenni og fjölskyldur þeirra. Við opnuðum líka nýja og glæsilega skammtímadvöl fyrir börn og ungmenni. Velferðarsvið tók fullan þátt í stafrænni umbreytingu borgarinnar með rafvæðingu fjárhagsaðstoðar sem unnin var í samstarfi við þjónustu- og nýsköpunarsvið. Þjónusta við heimilislaust fólk var bætt, meðal annars með tilkomu nýrra smáhúsa í Gufunesi, og þjónusta við umsækjendur um alþjóðlega vernd var samþætt og aukin með nýjum samningi við Útlendingastofnun. Skömmu fyrir áramót var svo undirritaður samningur við Sjúkratryggingar um stóraukna heimahjúkrun í Reykjavík. Allt eru þetta áfangar til þess fallnir að bæta og auka þá mikilvægu þjónustu sem við veitum á velferðarsviði.

Við drögum dýrmætan lærdóm af árinu 2020. Þekking og reynsla starfsfólks í bland við útsjónarsemi, metnað og mikla ábyrgðarkennd stendur upp úr að mínu mati.

Framtíðin er björt með slíkan mannauð.

Regína