
Covid-19 og velferðarsvið
Snemma árs 2020 hélt Covid-19 innreið sína í íslenskt samfélag. Í aðdraganda þess hafði velferðarsvið stofnað neyðarstjórn með sérhæfðum undirteymum. Frá upphafi var höfuðáhersla lögð á ítrustu sóttvarnir og leiðarljósið að skerða þjónustu sem allra minnst.
Áætlanir voru gerðar fyrir hvern og einn starfsstað áður en fyrsta smitið greindist á landinu og því var velferðarsvið vel reiðubúið til að takast á við faraldurinn. Velferðarsvið var þannig leiðandi í viðbrögðum við faraldrinum en neyðaráætlanir og verklag þess nýttust Almannavörnum og öðrum sveitarfélögum með beinum hætti.
Árinu 2020 lauk með því að bólusetningar viðkvæmustu hópa samfélagsins hófust. Í millitíðinni tókst starfsfólk velferðarsviðs og notendur velferðarþjónustu á við fjölmargar áskoranir sem tengdust heimsfaraldrinum.
Neyðarstjórn velferðarsviðs
Neyðarstjórn velferðarsviðs tók til starfa áður en fyrstu Covid-19 smitin bárust til landsins. Á vettvangi hennar hafa línur verið lagðar og tekist á við flókin úrlausnarefni sem upp komu.
Í neyðarstjórninni sátu lykilstjórnendur velferðarsviðs auk fulltrúa í sóttvarnanefnd og einstaklinga í fimm undirteymum: Teymi heimaþjónustu, teymi sértækrar búsetu, teymi þjónustuíbúða, teymi stuðningsþjónustu og teymi stjórnsýsluhúsa.
Neyðarstjórnin hélt um sjötíu formlega fundi á árinu.
Sóttkví og einangrun 2020
Áskoranir faraldursins og viðbrögð velferðarsviðs
Fyrsti fundur neyðarstjórnar
Neyðarstjórn velferðarsviðs hélt sinn fyrsta formlega fund vegna kórónaveirunnar. Viðbragðsáætlun sviðsins vegna mögulegs heimsfaraldurs tók gildi tveimur dögum síðar.
Covid-smit á Íslandi
Fyrsta staðfesta Covid-19 tilfellið greindist á Íslandi. Hættustig almannavarna virkjað.
Neyðarstig og lokanir
Fyrsta innanlandssmitið staðfest. Neyðarstig almannavarna og viðbragðsáætlun Reykjavíkurborgar virkjuð. Starfsstöðum með þjónustu fyrir viðkvæma hópa lokað.
Lesa alla fréttina
Smit á íbúðakjarna
13. mars 2020

Þann 13. mars voru fjöldatakmarkanir á landsvísu færðar niður í 100 manns.
Fyrsta smitið meðal notenda þjónustu velferðarsviðs kom upp, þegar íbúi á íbúðakjarna fyrir fatlað fólk smitaðist af Covid-19. Starfsmannahópnum var skipt upp á milli þeirra sem sinntu veikum íbúa og hinna sem voru í sóttkví með öðrum íbúum. Útveguð var aukaíbúð fyrir starfsfólk sem var að sinna íbúanum í einangrun, þar sem honum var sinnt.
Þessu fylgdu ýmsar aðrar áskoranir fyrir starfsfólk, sem þurfti meðal annars að tileinka sér að klæðast hlífðargalla við störf sín.
Bakvarðasveit virkjuð
Leitað til starfsfólks og annarra áhugasamra aðila til að mynda bakvarðasveit sem kemur að veitingu velferðarþjónustu.
Lesa alla fréttina
Róðurinn þyngist
Fjöldatakmarkanir færðar niður í 20 manns. 149 starfsmenn og 35 íbúar í sóttkví, 5 starfsmenn og 1 íbúi í einangrun. Allt kapp lagt á að skerða þjónustu sem minnst.
Lesa alla fréttina
Hringt í eldra fólk
Viðamikla samstarfsverkefninu Spjöllum saman hleypt af stokkunum. Hringt var í allt fólk 85 ára og eldra sem bjó eitt í Reykjavík og spjallað um líðan þess og aðstæður.
Lesa alla fréttina
Gjöfult samstarf við HÍ
Samstarf velferðarsviðs við HÍ um þátttöku nema í félagsráðgjöf í verkefninu Spjöllum saman reyndist árangursríkt. Nemendur fengu starfið metið til eininga.
Lesa alla fréttina
Félagsmiðstöðvar opnaðar
Fjöldatakmarkanir rýmkaðar í 50 manns. Félagsstarf velferðarsviðs opnar aftur með takmörkunum, en það hafði verið lokað síðan 6. mars.
Lesa alla fréttina
Fjölgun tilkynninga til Barnaverndar
Allt frá upphafi faraldurs var grannt fylgst með hvers konar þróun á þjónustu og tölfræði. Meðal þess sem fjölgaði mikið voru tilkynningar til Barnaverndar.
Lesa alla fréttina
Öflugt starf á félagsmiðstöðvum
Sumarið 2020

Vel tókst að sporna við útbreiðslu faraldursins yfir sumartímann, en fjöldatakmarkanir fóru upp í 200 manns í lok maí og síðan upp í 500 manns um miðjan júní samhliða frekari tilsklökunum.
Félagsstarf velferðarsviðs fyrir fullorðna var í miklum blóma yfir sumartímann en bæði ríki og borg styrktu það sérstaklega í kjölfar Covid-19. Mikil áhersla var lögð á að efla hreyfingu og bæta líðan í gegnum fjölbreytta fræðslu og námskeið, m.a. í hláturjóga, dansleikfimi og jákvæðri sálfræði. Einnig var boðið var upp á námskeið í tæknilæsi og fjölmargir hópar ungs listafólks lét ljós sitt skína með leik, söng og dansi.
Lesa alla fréttina
Takmarkanir síðla sumars
Fjöldatakmarkanir aftur færðar niður í 100 manns í ljósi mikillar fjölgunar smita í samfélaginu.
Neyðarúrræði opið lengur
Ákveðið að framlengja opnun tímabundins neyðarrúrræðis fyrir heimilislausar konur, sem opnað var í Skipholti í apríl sem viðbragð við Covid-19.
Lesa alla fréttina
Hópsmit á íbúðakjarna
Tveir starfsmenn tveggja íbúðakjarna fyrir fatlað fólk í Reykjavík greindust með Covid-19. Í kjölfarið smituðust fjöldi starfsfólks og tveir íbúar á öðrum kjarnanum auk þess sem tuttugu fóru í sóttkví.
Lesa alla fréttina
Aftur á neyðarstig
Neyðarstig almannavarna virkjað aftur vegna fjölda smita. Samkomutakmarkanir hertar. Allt kapp lagt á að takmarka skerðingu í velferðarþjónustu en gæta um leið fyllsta öryggis í smitvörnum.
Lesa alla fréttina
Hjálparsamtök styrkt
Fjölskylduhjálp Íslands, Hjálparstarf kirkjunnar og Mæðrastyrksnefnd fá 1,5 milljónir hvert í aukastyrk frá velferðarráði vegna Covid-19
Lesa alla fréttina
Metfjöldi í einangrun
Um miðjan október voru alls 30 starfsmenn velferðarsviðs í einangrun vegna Covid-19 – fleiri en nokkru sinni á árinu 2020.
Hópsmit og krefjandi áskoranir
Mánaðamótin október – nóvember 2020

Um mánaðarmótin október – nóvember komu upp krefjandi áskoranir sem tengdust Covid-19 smitum.
Smit kom upp í íbúðablokk þar sem velferðarsvið rekur félagsmiðstöð og þjónustuíbúðir. Sjö íbúar greindust með smit og tveir starfsmenn velferðarsviðs. Einn íbúanna lést síðar á Landspítalanum. Allir íbúar voru settir í sóttkví, félagsmiðstöðinni lokað en forstöðumaður hennar var íbúum innan handar á staðnum og miðlaði upplýsingum til aðstandenda. Höfð var milliganga um sýnatöku fyrir alla íbúa og þeir fengu máltíðir sendar heim auk frekari stuðnings.
Þá kom upp smit hjá starfsmanni og íbúa á Foldabæ sem er sambýli fyrir konur með heilabilun. Sjö starfsmenn velferðarsviðs og sjö íbúar heimilisins fóru í sóttkví. Smitin voru áskorun vegna návígis íbúa en verkefnið var nálgast líkt og allir íbúar væru í einangrun. Starfsfólk gekk til starfa í hlífðarbúningum og gámar voru settir upp við húsið með starfsmannaaðstöðu, salerni og sturtu. Mikil áhersla var lögð á að íbúum liði sem best við krefjandi aðstæður og að upplýsingaflæði til aðstandenda væri gott.
Takmarkanir hertar til muna
Ströngustu takmarkanir hingað til taka gildi. Tíu manns mega koma saman og víðtæk grímuskylda. Áhersla á fjarþjónustu hjá þjónustumiðstöðvum borgarinnar er aukin enn frekar.
Lesa alla fréttina
Spornað við heimilisofbeldi
Velferðarsvið hlaut styrki frá félags- og barnamálaráðherra og dómsmálaráðherra til baráttu gegn heimilisofbeldi sem jókst í faraldrinum.
Lesa alla fréttina
Öflugur liðsauki af öðrum sviðum borgarinnar
Nóvember 2020

Fjölmargt starfsfólk af ýmsum starfsstöðum og öðrum sviðum Reykjavíkurborgar, meðal annars frá menningar- og ferðamálasviði og skóla- og frístundasviði, svaraði ákalli frá velferðarsviði og veitti liðsauka þar sem mikið álag var á starfsfólk sviðsins vegna faraldursins, á meðan starfsemi var í lágmarki víðs vegar annars staðar.
Margt af fólkinu sem kom til vinnu á velferðarsviði tók að sér að vera símavinir og hringja í eldra fólk til að spjalla við það og athuga líðan. Þá tók starfsfólk einnig tekið að sér vaktir í neyðarskýlum fyrir heimilislaust fólk.
Lesa alla fréttina
Langþráðar tilslakanir
Tilslakanir gerðar á samkomutakmörkunum. Allt að 100 manns mega koma saman í verslunum. Dregið úr grímuskyldu.
Dansað í desember
Íbúar og starfsfólk hjúkrunarheimilisins Droplaugarstaða tóku sig til og dönsuðu Covid-drungann á brott.
Lesa alla fréttina
Bóluefnin koma til landsins
Fyrstu skammtarnir af bóluefnum gegn Covid-19 koma til landsins. Bóluefnið kemur frá Pfizer. Fyrsti skammtur dugar fyrir 5000 manns.
Bólusetning við Covid-19 hefst
29. desember 2020

Það voru merk tímamót þegar Þorleifur Hauksson, íbúi í Seljahlíð, fékk bóluefni við Covid-19, fyrstur meðal almennings á Íslandi. Þorleifur var bólusettur við hátíðlega athöfn og var Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra meðal annars viðstödd. Sama dag hófust bólusetningar á Droplaugarstöðum og var þeim lokið fljótlega eftir hádegið. Þar voru í heild 77 íbúar bólusettir.
Krefjandi ári með óteljandi áskorunum lauk því á jákvæðan hátt sem gaf tóninn um að árið 2021 yrði heimsbyggðinni örlítið léttara í skauti en Covid-árið 2020 reyndist vera.
Lesa alla fréttina