Velferðarsviði tilheyra 112 ólíkir starfsstaðir sem sinna fjölbreyttri þjónustu við börn og fjölskyldur þeirra, fatlað fólk, eldra fólk og ýmsa aðra íbúa Reykjavíkurborgar. Í hópi starfsfólks er einnig mikil fjölbreytni en á sviðinu starfa rúmlega þrjú þúsund manns að meðaltali í hverjum mánuði.  

 Óhætt er að segja að langstærsta áskorunin fyrir starfsemi velferðarsviðs á árinu 2020 hafi verið innreið Covid-19 heimsfaraldursins.
Reynt var eftir fremsta megni að halda starfsstöðum opnum og komast hjá því að skerða þjónustu. Því þurfti að aðlaga og breyta starfseminni hratt og örugglega. 

Starfsfólk

Á velferðarsviði starfa samheldnir hópar fólks á öllum aldri með fjölbreytta menntun og hæfileika. Starfsfólki fjölgaði á árinu í samræmi við fjölgun verkefna, meðal annars vegna Covid-19. Þannig voru rúmlega 3175 manns að meðaltali í hverjum mánuði við störf á velferðarsviði árið 2020.

Áskorunum sem fylgdu Covid-19 faraldrinum mætti starfsfólk með miklum krafti, ósérhlífni og útsjónarsemi.

Viðhorf og líðan

Mikill meirihluti starfsfólks velferðarsviðs var ánægður í starfi árið 2020 og er stolt af því að tilheyra sínum starfsstað. Starfsandi fer lítillega niður á við. Líklegt er að það sé tilkomið vegna röskunar á starfsemi og færri möguleikum til að vinna með og styrkja starfsanda samhliða Covid-19.

Þetta er á meðal þess sem lesa má úr viðhorfskönnun sem gerð er árlega meðal starfsfólks Reykjavíkurborgar og gefur hugmynd um viðhorf og afstöðu þess til starfsumhverfis, samskipta og stjórnunarhátta.   

 Fyrir hverja spurningu er reiknuð einkunn á bilinu 1 til 5 og er hærri einkunn alltaf jákvæðari niðurstaða. 

Fræðslustarf

Ljóst er að Covid-19 hafði mjög mikil áhrif á fræðslustarf á velferðarsviði. Talsverð fækkun varð í hópi þátttakenda enda mun færri fræðsluviðburðir í boði en undanfarin ár, sér í lagi vegna samkomutakmarkana sem voru miklar á stórum hluta ársins. Aðallega var um að ræða rafræn námskeið, en líka nýliðafræðslu í málefnum fatlaðs fólks, nýliðafræðslu í heimaþjónustu og skyndihjálp.

Skipulag

Hér fyrir neðan gefur að líta skipurit velferðarsviðs eins og það leit út árið 2020. Breytingar voru samþykktar á skipulagi Barnaverndar í upphafi árs í samræmi við framkvæmdaáætlun til ársins 2022.

Á árinu 2020 voru drög lögð að fyrstu heildstæðu velferðarstefnu Reykjavíkurborgar. Stýrihópur skipaður borgarfulltrúum, starfsfólki og hagsmunaaðilum starfaði á árinu og öflugt samráð var haft við íbúa og hagsmunaaðila í gegnum íbúagáttir og kannanir, rýnihópa og viðtöl. Þá fór einnig fram mjög virkt samtal, samráð og öflun hugmynda meðal starfsfólks og stjórnenda sviðsins, m.a. á viðamiklum Þekkingardegi velferðarsviðs - ÞEKKVEL - sem fram fór á rafrænan hátt um miðjan september 2020. Þáttakendur þar voru á fjórða hundrað talsins.

Þessi vinna fól meðal annars í sér endurskoðun á skipulagi stjórnsýslulegs skipulags og fjölmargar áherslur og aðgerðir sem raungerðust í lokaútgáfu stefnunnar sem var gefin út árið 2021.

skipurit-breytingsept2020 - litir2 -skalað